Bætur vegna riðu, vaxtahækkanir og kjaramál
Spegillinn - Un pódcast de RÚV
Categorías:
Spegillinn 23. maí 2023. Umsjón: Anna Kristín Jónsdóttir. Tæknimaður: Kormákur Marðarson. Stjórn útsendingar: Ingibjörg Sara Guðmundsdóttir. Bændur í Miðfirði, sem misstu allt fé sitt vegna riðu í vor, segja óvíst hvort þeir hefji sauðfjárbúskap að nýju. Áfallið sé mikið, bæði andlega og fjárhagslega, segir Dagbjört Diljá Einþórsdóttir. Ólöf Rún Erlendsdóttir talaði við hana. Ekki á að selja búnað sem var keyptur fyrir lögreglu vegna leiðtogafundarins í síðustu viku, þar með talin skotvopn. Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra segir að vopnin nýtist í framtíðinni. Arndís Anna Krístínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, spurði Jón á þingi í dag hvað hann hefði í hyggju með vopnin. Hæstiréttur hefur sýknað Kópavogsbæ af kröfum erfingja Sigurðar Hjaltested um bætur fyrir eignarnám á Vatnsenda. Dómurinn tók undir með Landsrétti að bærinn hefði gert rétt með því að greiða Þorsteini Hjaltested einum bætur. Alexander Kristjánsson sagði frá. Flug bæði innanlands og til útlanda raskaðist í veðurhamnum í dag en ekki hefur borið á tilkynningum um foktjón. Gular viðvarnir gilda fram á morgundaginn. Ferðir til útlanda seljast eins og heitar lummur. Þórunn Reynisdóttir, forstjóri Úrval Útsýn segir meiri sölu þegar veðrið er vont. Flestir sækja í sólina. ------------ Það ætti ekki að koma neinum á óvart að vextir fari hækkandi á meðan verðbólga er í þessum hæðum segir Jón Þór Sturluson hagfræðingur og deildarforseti viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands. Seðlabankinn ákveður stýrivexti á morgun. Jón Þór segir að það skjóti skökku við að ríkissjóður sé rekinn með halla við þessar kringumstæður - þar sem sé mikill hagvöxtur í kerfinu og mikil spenna á vinnumarkaði og vörumarkaði. Ragnhildur Thorlacius ræddi við hann. Einnar viku vopnahlé í Súdan virðist ætla að verða virt þrátt fyrir sprengjuárásir í gærkvöld og nótt. Tugmilljónir landsmanna þurfa á neyðaraðstoð að halda. Ásgeir Tómasson sagði frá. Moe Faddoul, íbúi í höfuðborginni, Abdou Dieng, sem stýrir mannúðaraðstoð Sameinuðu þjóðanna. Enginn fundur hefur verið boðaður í kjaradeilu BSRB og Sambands íslenskra sveitarfélaga og mikið ber á milli. Um 1.500 félagsmenn BSRB sem starfa hjá tíu sveitarfélögum eru í verkfalli þessa vikuna og frekari aðgerðir hafa verið samþykktar, alveg fram í júlí. Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir kröfur BSRB margar eðlilegar, en ekki sé hægt að endursemja um samning sem er liðinn og að fullu efndur.